Á aðalfundi HEÞ nú nýverið var lauslega rætt um hvort tími væri kominn á breyttar áherslur í störfum samtakanna. Langmestur þungi í starfi HEÞ hefur hingað til legið í stóðhestaumsýslu af ýmsu tagi. Í dag er svo komið að offramboð er á góðum stóðhestum og fyrstu verðlauna kynbótagripir standa einmana og umkomulausir í hólfum sínum víða um land. Aðgengi að úrvalsstóðhestum er því allt annað og betra en á árum áður ásamt því sem samgöngur og flutningar allir eru til muna einfaldari og þægilegri. Það er því full þörf á að ræða hvort tími sé kominn til að HEÞ segi sig algjörlega frá slíkri umsýslu og einbeiti sér að öðrum mikilvægum verkefnum í þágu hrossaræktenda hér á svæðinu.
Einn megin tilgangur HEÞ við stofnun samtakanna var að vinna að markaðsmálum fyrir hrossaræktendur á svæðinu. Langflestir hrossaræktendur stórir sem smáir þurfa að selja frá sér gripi á einhverjum tímapunkti og því er hér um sameiginlegt hagsmunamál allra hrossaræktenda annarra en þeirra sem eingöngu rækta reiðhross til heimilisnota! Full ástæða er til að ræða þessi mál og velta upp hugmyndum að markaðsverkefnum sem áhugavert gæti verið að vinna að undir merki HEÞ, til dæmis í samstarfi við ferðaþjónustuaðila sem lifa nú mikla uppgangstíma samfara mikilli fjölgun ferðamanna til landsins. Þessi aukna athygli sem beinist að landinu býður upp á tækifæri til að kynna og markaðssetja íslenska hestinn hér á heimavelli með það að langtímamarkmiði að auka áhuga á hestamennsku, efla sölu á reiðhestum og bæta hag hrossaræktenda sem lifa nú heldur bragðdaufa tíma ef marka má umræðuna manna á milli þessi misserin.
Hér norðan heiða höfum við nú þegar ýmsa viðburði sem vel má hugsa sér að efla og markaðssetja af krafti í samstarfi ferðaþjónustunnar og hrossabænda. Hestaréttir í Eyjafirði, Mývatn open, Stjörnutölt og reiðhallarsýningin „Fákar og fjör“ eru dæmi um viðburði sem gætu verið miðpunktar í markaðssetningu á ferðum erlends hestaáhugafólks til Norðurlands.
Í kringum þessa miðpunkta mætti svo sauma heimsóknir á hrossaræktarbú, sölusýningar á reiðhestum, folaldasýningar, fræðsluerindi ýmis konar og stutta reiðtúra eða reiðnámskeið.
Svo vel takist til er nauðsynlegt að vanda til verka, horfa langt fram í tímann og standa með myndarskap og glæsibrag að hverju verkefni. Þeir aðilar sem sjá um „miðpunktana“ þurfa að tryggja að vel sé staðið að málum, hægt að ganga að dagsetningum vísum langt fram í tímann (helst sömu helgina árlega), kynningar þurfa að vera í boði á erlendum tungumálum og aðstaða og móttökur allar sem bestar. Ef vel er að málum staðið strax í upphafi geta slíkir viðburðir fest sig í sessi, skapað tekjur og búið til ný tengsl milli hrossaræktenda, kaupmanna og hestafólks víða um heim.
Allt of lítil nýliðun er stóra vandamálið í hestamennskunni hér innanlands. Á meðan mikil uppsveifla er í ýmis konar útivist og léttri afþreyingu meðal almennings virðist mjög lítill hluti virkra félaga í hestamannafélögum vera á aldrinum 20-40 ára. Allt of mikill kostnaður við að halda hesta og koma sér upp aðstöðu veldur því að ungt fólk velur sér önnur áhugamál. Keppnishald miðast einnig of mikið við þá allra reyndustu og sárasjaldgæft er orðið að sjá „hinn almenna hestamann“ taka þátt í keppni sér til gamans. Að taka þátt í keppni á að vera skemmtilegt og hæfilega krefjandi verkefni fyrir hvaða hestamann sem er líkt og í öðrum áhugamálum sem venjulegt fólk velur sér, t.d golfi, hlaupum, blaki eða hverju sem er þar sem mót eru haldin fyrst og fremst til að efla samkennd, skemmta sér og hitta fólk með sameiginlegt áhugamál.
Bestu kveðjur úr snjóskaflinum á Húsavík 11. apríl 2013, Bjarni Páll Vilhjálmsson.