Lög H.E.Þ.

                                                                      1. gr.
Félagið heitir Hrossaræktarsamtök Eyfirðinga og Þingeyinga, skammstafað H.E.Þ.
Starfssvæði þess eru samnefndar sýslur. Það er aðili að Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, Búnaðarsambandi S-Þingeyinga, Búnaðarsambandi N-Þingeyinga og Félagi hrossabænda. Heimili þess og varnarþing er að Óseyri 2, Akureyri.

                                                                      2. gr.
Félagið starfar samkvæmt búnaðarlögum, lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og samþykktum Bændasamtaka Íslands.

3. gr.
Félagar geta allir orðið sem stunda hrossarækt eða hafa áhuga á framgangi hrossaræktar á félagssvæðinu.
Inntökubeiðnir nýrra félaga skal bera upp til samþykktar á stjórnarfundi. Félagar greiða árgjald sem ákveðið er á aðalfundi ár hvert.

4. gr.
Tilgangur félagsins er:
1. Að vinna ötullega að ræktun íslenska hestsins.
2. Að vinna í samvinnu við önnur félög og stofnanir að góðu uppeldi, aðbúnaði og tamningu hrossa.
3. Að glæða áhuga fyrir hrossarækt og hestamennsku með öflugu fræðslu- og útbreiðslustarfi.
4. Að vinna að sölumálum fyrir reiðhesta og kynbótahross innanlands og erlendis og hafa um það samvinnu við aðra aðila, með það að markmiði að skapa aukin verðmæti hrossaeigendum og þjóðinni til hagsældar.
5. Að vinna að sölumálum fyrir hrossaafurðir, jafnt á innlendum sem erlendum mörkuðum, með það að markmiði að auka verðmæti afurðanna.
6. Að vinna að öðrum hagsmunamálum hrossaræktenda eftir því sem tilefni gefst til.

5. gr.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Allir félagar hafa seturétt, málfrelsi og atkvæðisrétt á aðalfundi.
Aðalfund skal halda árlega og eigi síðar en 15. apríl. Heimilt er að halda aukaaðalfund þess utan ef þurfa þykir. Aðalfund skal boða á tryggilegan hátt með minnst viku fyrirvara. Á aðalfundi gilda almenn fundarsköp. Á aðalfundi skal:
1. Flytja skýrslu stjórnar.
2. Leggja fram og skýra endurskoðaða reikninga til samþykktar eða synjunar.
3. Kjósa stjórn samkv. 6. gr. og fulltrúa á aðalfundi þeirra félaga sem samtökin eru aðili að.
4. Taka ákvarðanir um önnur mál sem varða félagið.

6. gr.
Stjórn félagsins skipa 3 menn kosnir til þriggja ára og 3 varamenn til sama tíma. Aðalmenn skulu kosnir þannig að eitt árið er kosinn formaður, annað árið gjaldkeri og þriðja árið ritari. Varamenn skulu kosnir með sama hætti.
Aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara til tveggja ára.
Stjórn ræður málefnum félagsins á milli funda. Hún hefur umsjón með fjárreiðum félagsins og ber ábyrgð á þeim. Einstakir stjórnar- eða félagsmenn verða þó aldrei persónulega ábyrgir fyrir skuldbindingum samtakanna, nema þeir hafi farið út fyrir umboð sitt. Meirihluti atkvæða ræður innan stjórnarinnar sé ágreiningur um afgreiðslu mála.

7. gr.
Formaður boðar til stjórnarfunda svo oft sem þurfa þykir. Krefjist einn stjórnarmaður fundar ber formanni að boða til hans. Stjórnarfund skal boða með minnst 3ja daga fyrirvara, sé þess kostur. Stjórn getur skipað starfsnefndir í einstaka málaflokka og/eða gert tillögur til aðalfundar um slíkt sé það talið henta. Boða skal til almenns félagsfundar ef 20 félagsmenn krefjast þess með undirskrift sinni. Almenna félagsfundi skal boða með sama hætti og aðalfundi.

8. gr.
Stjórn skal sjá til þess að fréttir af starfi stjórnar og nefnda berist reglulega til félagsmanna á heimasíðu H.E.Þ.

9. gr.
Tekjur félagsins skulu vera:
1. Félagsgjöld samkvæmt ákvörðun aðalfundar hverju sinni.
2. Aðrar tekjur.

10. gr.
Reikningsár samtakanna er almanaksárið. Kjörnir skoðunarmenn framkvæma venjubundna árlega endurskoðu, kynna sér starfrækslu félagsins og gera grein fyrir starfi sínu á aðalfundi.

11. gr.
Lagabreytingar verða aðeins gerðar á aðalfundi og þarf til þess samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillögur um breytingar á lögum skal kynna um leið og aðalfundur er boðaður.

12. gr.
Félagið hættir störfum ef það er samþykkt í formi lagabreytinga á aðalfundi. Eignir skulu þá afhentar búnaðarsamböndum starfssvæðisins sem varðveita þær á tryggilegan hátt þar til sambærileg samtök hafa verið stofnuð að mati stjórnar búnaðarsambandanna og ganga þá eignirnar til hins nýja félags.

Lög þessi tóku gildi 1. janúar 1997.
Lögunum var breytt á aðalfundi 13. mars 2003.
Lögunum var breytt á aðalfundi 17. mars 2009.
Lögunum var breytt á aðalfundi 27. apríl 2017.