Hagagæði – samstarfsverkefni Félags hrossabænda og Landgræðslunnar

Árið 2017 stofnuðu Landgræðsla ríkisins og Félag hrossabænda til verkefnis um landnýtingu og úttektir hrossahaga. Verkefnið hlaut nafnið „Hagagæði“. Verkefnið snýst um að hrossabændur og aðrir, sem halda hross, geti fengið staðfest með formlegum hætti að landnýting þeirra sé með sjálfbærum hætti, enda standist meðferð þeirra á beitarlandi sett viðmið.

Gert var sérstakt einkennismerki (logo) fyrir „Hagagæði“. Merkið má sjá á forsíðu ársskýrslunnar sem má sjá með því að smella hér. Á viðurkenningarskjali til þátttakenda í verkefninu eru einkennismerki Landgræðslunnar og Félags hrossabænda, auk einkennismerkis „Hagagæða“, með ártalinu 2017.

Á einkennismerkinu verður jafnan ártal þess árs sem viðurkenningin á við. Verið er að skoða með hvaða hætti þátttakendur geta notað einkennismerki „Hagagæða“  til að styðja við starfsemi sína, t.d. á auglýsingum og á heimasíðum. Stefnt er að því að þátttakendur fái merki (límmiða) „Hagagæða“, sem þeir geta notað til að merkja bíla eða hestakerrur. Einnig er í skoðun að gera fána með einkennismerki verkefnisins.