Gæðastýring í hrossarækt.

 

Landgræðslan hefur haft umsjón með landnýtingarþætti gæðastýringar í hrossarækt frá því hrossabændur settu gæðastýringuna á laggirnar árið 2000. Gæðastýring í hrossarækt tekur til skýrsluhalds, landnýtingar og heilbrigðis hrossa. Á árinu 2006 fengu 41 hrossaræktarbú staðfest frá Landgræðslunni að þau standist kröfur um vistvæna landnýtingu. Héraðsfulltrúar Landgræðslunnar sjá um úttektir á beitilandi hjá þeim hrossabændum sem þess óska. Við landmatið er einkum notaður ástandsskali sem þróaður var af Borgþóri Magnússyni og fleirum. Þessari aðferð til að meta ástand lands er lýst í ritinu “Hrossahagar”, sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðsla ríkisins gáfu út í maí 1997.

Þrátt fyrir sterkan kjarna öflugra hrossabúa sem eru virk í landnýtingarþættinum er full ástæða til að ætla að meiri þátttaka í þessum þætti gæðastýringarinnar myndi verða hrossaræktinni til framdráttar. Reynslan sýnir að sú staðfesting að landnotkun sé með þeim hætti að ekki sé gengið á gæði landsins er hrossabændum afar mikils virði.

  Ímynd hrossabænda sem landnotenda hefur batnað mikið á seinni árum og var ekki vanþörf á. Nefna má að rétt beitarstýring verður til þess að hrossin ganga á betra landi en ella og afrakstur þess eykst. Rétt umgengni um beitiland er nauðsynlegur þáttur í sívaxandi fagmennsku hrossaræktar og hestamennsku á Íslandi.

Úttektir á landnotkun á gæðastýringarbúum eru gerðar í september og október ár hvert. Bjarni Maronsson, héraðsfulltrúi Landgræðslunnar á Norðurlandi vestra,  veitir nánari upplýsingar um gæðastýringuna og tekur á móti umsóknum um þátttöku í landnýtingarþættinum. Hægt er að hafa samband við Bjarna í síma 4556372 eða á tölvupóstfangið bjarni@land.is  Upplýsingar veitir einnig Vignir Sigurðsson, framkvæmdastjóri Búgarðs, í síma 4604468.