Aðalfundur HEÞ 18. mars 2008

 

Aðalfundur HEÞ var haldinn að Öngulsstöðum 18. mars 2008 kl. 20.30.

Formaður samtakanna Baldvin Kr. Baldvinsson setti fund og kom með tillögu um Ævar Hreinsson, sem fundarstjóra og Jónas Vigfússon fundarritara. Tillagan samþykkt.

 

1.      Skýrsla stjórnar

Baldvin flutti skýrslu stjórnar og fjallaði sérstaklega um erindi HRAUST þess efnis að fara fram á slit á eignarhaldsfélagi um Gust frá Hóli. Ætlar HRAUST að fara fram á þessi slit vegna þess að ekki næst samkomulag við Hrossaræktarsamtök Vesturlands um hvernig beri að nota hann. Vill HRAUST að folatollum verði fækkað í 18 á ári og að hesturinn verði hafður á sama stað allt árið. Hrossaræktasamtök Vesturlands hafa ráðstafað 15 tollum undir hestinn á seinna gangmáli í ár en eru til viðræðu um breytingar eftir það. Að öðru leyti vísast til útgefinnar skýrslu stjórnar.

 

2.      Reikningar

Zophonías Jónmundsson gjaldkeri fór yfir og skýrði reikninga sambandsins en hagnaður ársins var um 608 þús. kr., veltufjármunir um 5.352 þús. kr. og fastafjármunir um 11.171 þús. kr. og viðskiptaskuldir um 6.491 þús. kr. Eftir nokkrar skýringar voru ársreikningar samþykktir.

 

3.      Kosningar

Vilberg Jónsson og Zophonías Jónmundsson áttu að ganga úr stjórn. Vilberg gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var stungið upp á Höskuldi Jónssyni í stjórn í stað hans. Zophonías og Höskuldur voru kosnir í stjórn með lófataki og til vara Þorvar Þorsteinsson og Auðbjörn Kristinsson.

Á ársþing Félags hrossabænda voru kjörnir Höskuldur Jónsson, Zophonías Jón­mundsson, Ríkarður Hafdal, Vignir Sigurólason, Vignir Sigurðsson og Þorvar Þorsteins­son og til vara Auðbjörn Kristinsson, Jónas Vigfússon, Vilberg Jónsson og Þorsteinn Hólm í þessari röð.

 

4.      Önnur mál

Eftir veglegar kaffiveitingar í boði samtakanna hófust umræður um önnur mál. Þorsteinn Hólm vill að leitað sé sátta varðandi Gust þannig að hægt sé að taka upp svipað kerfi og Austfirðingar leggja til. Vilberg vill að athugað sé hvernig sé með forkaupsrétt komi til slita. Vignir Sigurólason er sammála Þorsteini varðandi sættir en telur alls ekki sannað að fjöldi hryssa hjá stóðhestum hafi eins mikil áhrif á fyljunarfjölda og margir vilja halda fram. Þór Jónsteinsson spurði hvort verjandi væri að kaupa hestinn á háu verði í ljósi fyljunarhlutfalls. Aðrir sem tjáðu sig um málið voru Guðmundur Skarphéðinsson, Ríkarður Hafdal, Baldvin og Höskuldur. Ákveðið var að formaður hafi strax samband við stjórn HRAUST og óski eftir fundi með þeim til að reyna að ná sáttum um framtíð hestsins.

Snorri Kristjánsson kynnti lagabreytingar hjá Hrossaræktarfélagi Suður-Þingeyinga en þær fjalla einkum um félagsaðild þannig að félagar geti allir orðið sem stundi hrossarækt á félagssvæðinu. Þá missi félagar réttindi skuldi þeir félagsgjald um áramót. Mikið var rætt um samræmingu á lögum aðildarfélaganna og stjórn falið að fara yfir þau mál. Til máls tóku m.a. Anna Guðrún Grétarsdóttir, Vignir Sigurðsson, Jónas, Þorsteinn og Vignir Sigurólason. Lagabreytingar Hrossaræktarfélags Suður-Þingeyinga voru síðan bornar undir frundinn og samþykktar samhljóða.

Að lokum var fjallað um stóðhesta á svæðinu. Upplýst var að Sveinn Hervar verður á vegum samtakanna seinna tímabil. þá verður Blær frá Hesti á vegum Hrossaræktar­félags Svarfdælinga og Framfara. Þokki frá Kýrholti verður í Eyjafirði á vegum einstaklinga og Adam frá Ásmundarstöðum í Þingeyjarsýslu. Ýmsir fleiri hestar verða á svæðinu eins og Týr frá Skeiðháholti og eru umsjónarmenn hvattir til að auglýsa hestana á vef samtakanna http://www.hryssa.is.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið/J.V.