Aðalfundur Félags Hrossabænda

haldinn þann 9. nóvember 2007 á Hótel Sögu

 

 

Kristinn Guðnason, formaður FHB setti fundinn

Starfsmenn fundarinn voru skipaðir eftirfarandi:

Fundarstjórar, Ingimar Ingimarsson og Pálmi Guðmundsson.

Fundarritarar: Bertha G. Kvaran og Vilberg Jónsson.

 

Ávörp gesta:

Bjarni Maronsson flutti þakkir frá Sveini Runólfssyni, landgræðslustjóra, fyrir gott samstarf við hestamenn, en Landgræðslan hefur séð um gæðastýringarþátt verkefnisins Gæðastýring í hrossarækt sem nú eru um 40 aðilar þátttakendur í. Bjarni benti á þá auðlind sem bæði íslenski hesturinn og gróður landsins eru.

 

Guðlaugur Antonsson, landsráðunautur í hrossarækt, minnti á að Félag hrossabænda hefur meirihlutavald í Fagráði og tilmæli hans til félagsmanna og ráðamanna voru að standa vörð um þá grunnhugsun að það væru bændur sem gættu hagsmuna sinnar búgreinar hverju sinni, ekki einhverjir aðrir.

 

Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands og Kristinn Guðnason formaður FHB undirrituðu samstarfssamning LBHÍ og FHB.

Ágúst gat þess að þetta væri samningur um sameiginleg áhugamál og vildi undirstrika mikilvægi endurmenntunar. Nú eru fjórir nemendur við háskólann í doktorsnámi og þar af eru þrír á sviði hrossaræktar.

 

Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, var heiðraður fyrir framlag sitt til greinarinnar. Kristinn færði honum skemmtilega teiknaða mynd eftir Guðröð Jóhannsson í  Beinakeldu. Gat hann þess að Guðni hefði lagt margt gott til hestamennskunnar og verið mikill talsmaður hennar í sinni ráðherratíð.

Guðni þakkaði einstakt samstarf við hestamenn og minntist þess að þegar hann kom fyrst að þessum málum var kreppa viðvarandi í greininni en nú væri velsæld.

 

Skýrsla stjórnar

Kristinn Guðnason flutti skýrsluna.

Starfsmannaskipti hafa orðið á árinu, en Kristín Helgadóttir lét af störfum og eru henni þökkuð störf sín í þágu félagsins. Hulda G. Geirsdóttir gegnir nú 35% starfi hjá FHB og hefur m.a. umsjón með skrifstofunni, heimasíðu félagsins og sér um “Hestatorgið” ofl. Kristinn sagði ljóst að “Hestatorgið” væri verkefni sem væri komið til að vera.

Ekki er gott útlit á kjötmarkaði og líklegt að folaldakjöt muni lækka. Kristinn telur mikilvægt að FHB beiti sér fyrir því að halda verðinu sem bestu.

Landsráðunauturinn Guðlaugur og Kristinn héldu átta fundi víða um land sl. ár og rakti Kristinn fundarferðina í stórum dráttum.

Ljóst er að fjármagn vantar til frekari rannsókna á sviði hestamennskunnar, en verið er að vinna í dýrum rannsóknum eins og á sumarexemi.

 

Kristinn ítrekaði mikilvægi góðs aðbúnaðar, sérstaklega í þeirri ótíð sem verið hefur nú í haust, en skjól, góður hagi og vandlega hugsuð landnýting eru nauðsynlegir þættir til að vel megi fara.

Nýtt atriði er komið inn í verkefnið Gæðastýring í hrossarækt, en það er DNA ætternisgreining á öllum ásettum folöldum fæddum í ár.

Hólaskóli hefur yfirumsjón með knapamerkjakerfinu og hefur Helga Thoroddsen séð um þau. Fyrstu þrjú stigin hafa þegar verið fullgerð og kennsluefnið gefið út, en 4. og 5. stig eru í lokavinnslu og munu koma út snemma á nýju ári.  

Kristinn fór nokkrum orðum um HM í Hollandi sl. sumar og hrósaði skipulagningu mótsins, hestum og reiðmennsku, en gagnrýndi 5-gangskeppnina og velti upp þeirri spurningu hvort fara þurfi yfir útfærslu skeiðs í 5-gangi, þar sem skeið er hraðagangtegund og passar því varla inn á svo lítinn völl sem 250m völlur er. Þetta þyrfti að skoða, einnig með tilliti til þeirra ásakana sem komu fram erlendis um grófa reiðmennsku í 5-gangi á HM.

Landsmót verður á Hellu dagana 30. júní – 6. júlí 2008. Ákveðið hefur verið að fella niður verðlaunaafhendingu heiðursverðlaunahryssna á Landsmóti og verða þær verðlaunaðar framvegis á árlegri ráðstefnu um hrossarækt.

 

Tillaga um hækkuð viðmiðunarmörk kynbótahrossa inn á LM næsta vor:

 

Stóðhestar 4v:  8.00                 Hryssur 4v: 7.90

                  5v: 8.15                              5v: 8.05

                  6v: 8.25                               6v: 8.15

    7v. og eldri: 8.30                 7v. og eldri: 8.20

 

Sú breyting varð á Fagráði í hrossarækt sl. vor að Guðmundur Jónsson frá BÍ hætti, en í hans stað kom Sigurbjartur Pálsson.

Kristinn gat þess að gefist hefði vel að hafa tvær dómnefndir að störfum við kynbótasýningarnar og boðaði jafnframt hækkun sýningargjalda, en þau verða kr. 12.000 fyrir fullnaðardóm, en kr. 8.000 fyrir byggingardóm á næsta ári.

Stefnt er að því að koma á heimasíðuna gátlista varðandi stóðhestahald, aðbúnað og annað sem lýtur að umsýslu stóðhestahólfa.

Varðandi framtíðarsýn á dóma, varpaði Kristinn því fram til umræðu hvort setja eigi einkunn fyrir fet og hægt stökk inn í heildareinkunn. Einnig lagði hann áherslu á að samkvæmt hans mati ætti ekki að blanda saman byggingareinkunn og hæfileikaeinkunn, eins og gert er undir vissum kringumstæðum með einkunn fyrir háls – herðar – og bóga t.d..

Að lokum hvatti Kristinn til útrásar í hestamennskunni og þakkaði gott samstarf við BÍ og Guðlaug Antonsson.

 

Einar K. Guðfinnsson, ráðherra landbúnaðar- og sjávarútvegs, ávarpaði fundinn og sagði að stefna beri að því að vegur íslenska hestsins verði meiri en nokkru sinni fyrr.           

 

Hulda G. Geirsdóttir gerði grein fyrir starfssemi Hestatorgsins. Það er samstarfsverkefni FT, FHB, LH, WF, Söguseturs og Landsmóts.

Gefinn var út bæklingur, sem er ekki tímatengdur, þar sem allir samstarfsaðilar Hestatorgsins fá kynningu, hver á sínu sviði. Bæklingnum var dreift á HM í Hollandi, en þar var Hestatorgið með tvö tjöld, alls 130m2 og stóð fyrir mjög vel heppnuðu kynningarstarfi á mótssvæðinu.

 

Því næst las Eyþór Einarsson, gjaldkeri FHB, upp reikninga félagsins.

 

Kjörbréf bárust úr öllum deildum:

1 fulltrúi á byrjaða 50 félagsmenn. Formaður deildar er sjálfkjörinn.

 

Deild:               félagsmenn:       sendir:  mættir:

Vesturl.            54                    3          3

Dalamenn         51                    3          2

V. Hún.            73                    3          3

A. Hún.            91                    3          3

Skagafj.            181                  5          5

Eyf. +Þing.       264                  7          6

Hr. Aust.          65                    3          3

Hornafj.            10                    2          2

Hrs. Suð.          432                  10        8

Samtals            1.221

 

Matarhlé

 

Þar sem nokkrar tafir urðu á að Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma kæmist á fundinn, tók Guðlaugur Antonsson til máls og fór yfir frjósemismál.

Einnig minnti hann á að nú fæst A vottun ekki nema með sönnuðu ætterni (DNA).

 

Sigríður Björnsdóttir ræddi um rannsóknir á sumarexemi, en nú er í gangi einhver stærsta rannsókn sinnar tegundar í um sjö ár. Rannsóknir þessar krefjast mikilla fjármuna ef ljúka á verkinu með sóma.

Komið hefur í ljós að í fyrstu kynslóð útfluttra hrossa er tíðni sumarexems allt að 50%, en í seinni kynslóðum ekki nema 5 – 10%.

Sigríður þakkaði FHB fyrir aðkomu sína og styrk við ráðstefnu um sumarexem sem haldin var á Hólum sl. sumar.

Einnig fór hún yfir frjósemismálin, spattrannsókn, aðbúnað og umhirðu, en eins og viðrað hefur í haust er afar mikilvægt að huga vel að hrossaskjólum og fóðrun útigangs. Ítrekaði hún mikilvægi þess að hross nái fitusöfnun fyrir haustið, þannig að þau nái að búa sig undir veturinn og minnti á hve brýnt er að fella eldri hross áður en fer að sjá á þeim.

Sigríður taldi mjög mikilvægt að byggja upp öflugan rannsóknarsjóð, með framlögum t.d. hins opinbera, einstaklinga eða fyrirtækja, þar sem allt rannsóknarfé greinarinnar yrði í einum og sama sjóðnum, nokkurs konar samkeppnissjóði.

 

Hulda G. Geirsdóttir þakkaði Sigríði framlag hennar til greinarinnar og taldi rétt að fundurinn ályktaði um orð Sigríðar varðandi aðbúnaðarmálin og stuðning við rannsóknarvinnu.

 

Bjarni Þorkelsson tók undir nauðsyn þess að frjósemirannsóknir fari fram. Óskaði frekari útskýringa á samkeppnissjóðnum.

 

Sigríður útskýrði nánar hugmyndir sínar um sjóðinn, umsóknir í hann yrðu metnar út frá gæðum þess verkefnis sem sótt er um hverju sinni. Sjóðurinn marki sér þá stefnu að gæði verkefna fyrst og fremst ráði úrslitum um fjárúthlutun.

 

Erindi: Þekking – Fagmennska – Fjármagn

 

Magnús Jósefsson, Steinnesi:

Magnús fór á kostum og flutti sérlega skemmtilegt erindi um stöðu hrossabænda í dag. Þar lagði hann m.a áherslu á mikilvægi fræðslu á nýjum mörkuðum erlendis og hvatti ræktendur til að halda í besta efniviðinn, því þar lægi styrkur framtíðarinnar.

 

Finnur Ingólfsson, Vesturkoti:

Finnur fjallaði á ólíkan hátt um sama málefni. Erindi hans var mjög fróðlegt, þar sem hann lagði áherslu á hestamennsku og hrossarækt sem atvinnugrein. Hann varpaði m.a. fram þeirri spurningu: “Hvers vegna bíða fjárfestar ekki í röðum um  eftir að fjárfesta í hestamennskunni sem atvinnugrein?” Finnur benti einnig á að hægt væri að markaðsetja greinina mun betur en gert er í dag og á ólíkan hátt og benti t.d. á meistaradeild VÍS sem gott dæmi þar um.

 

Tillögur til nefnda:

 

Guðröður Ágústsson, Hr.Aust. lagði fram tvær tillögur fyrir fundinn:

1) Tryggingar fyrir leyndum göllum söluhrossa.

2) Úttekt á stóðhestagirðingum.

 

 

Bjarni Maronsson þakkaði þeim Magnúsi og Finni góða pistla og minnti á að jarðarverð færi hækkandi, sem leiðir af sér verðmætasköpun í landi. Minnti á mikilvægi góðrar meðferðar lands og að hross eru landnotendur.

 

Kaffihlé

 

Tillögur úr nefndum lagðar fram til umræðu og afgreiðslu.

 

Allsherjarnefnd – Magnús Jósefsson:

Allsherjarnefnd hafði til afgreiðslu tillögu frá Guðröði Ágústssyni sem fjallaði um úttekt á stóðhestagirðingum og hljóðaði hún svo:

“Félag hrossabænda beiti sér fyrir reglum þess efnis að:

“sá sem heldur stóðhestagirðingu (hættulaust svæði afmarkað með rafmagnsgirðingu, beitarsvæði, vatni og skjóli) fái úttektaraðila til taka út viðkomandi stóðhestagirðingu. Úttektin verði framkvæmd af starfsmönnum Búnaðarsambands eða ráðunauti. Félag hrossabænda gefi samhliða út samningseyðublöð milli hryssueigenda og eigenda stóðhestagirðinga þar sem hryssueigandi vottar að engir þekktir veikleikar eða kvillar hafði hrjáð viðkomandi dýr.”

Hugmyndin með úttektinni er að skapa heppilegan tryggingavettvang fyrir hryssueigendur, eigendur stóðhestagirðinga og tryggingarfélög. Gengi þetta eftir gæfi félag hrossabænda út formlega vottun þess efnis að viðkomandi stóðhestagirðing stæðist kröfur til slíkra girðinga. Eigandi stóðhestagirðingar gæti þá eftir atvikum gert samning við tryggingarfélag (tryggingaflokkur á landsvísu) um að tryggja innbúið þ.e. skepnur og fólk innan viðkomandi girðingar. Í þessu tilviki þyrfti ekki þá afsalspappíra sem sögur hafa heyrst af á liðnum misserum.”

 

Nefndin vísaði tillögunni frá með tilvísun í gátlista FHB um stóðhestahólf, sem m.a. má finna á heimasíðu FHB og í Handbók bænda.

 

Allsherjarnefnd lagði einnig til eftirfarandi tillögu:

Aðalfundur FHB, haldinn á Hótel Sögu þann 9. nóv. 2007 skorar á BÍ að hækka styrki til byggingar hrossaskjóla í kr. 100.000.-

Samþykkt samhljóða.

 

Fjárhagsnefnd - Birna Hauksdóttir:

Nefndin lagði fram tillögu um hækkun árgjalds úr kr. 3.500 í 4.000.-

Nokkrar umræður urðu um hækkunina, en hún var samþykkt með þorra greiddra atvæða.

M.a. kom fram að sambærileg áskrift að Worldfeng og fylgir árgjaldi FHB kostar kr. 5.500 á almennum markaði.

 

Markaðsnefnd – Indriði Karlsson:

Nefndin hafði til afgreiðslu tillögu frá Guðröði Ágústssyni sem fjallaði um tryggingar fyrir leyndum göllum.

Engin niðurstaða varð um tillöguna í nefndinni eins og hún stóð og lagði nefndin fram breytingartillögu sem hljóðaði svo:

“Aðalfundur Félags hrossabænda haldinn á Hótel Sögu 9. nóvember 2007 samþykkir að vísa því til stjórnar FHB að kanna endurkröfurétt á hendur íslenskum útflytjendum, framleiðendum, ræktendum, og seljendum er varðar leynda galla í íslenskum reiðhrossum. Kannað verði hvort Íslendingar njóti óheppilegra ívilnandi aðstæðna sem geti verið söluhamlandi þegar á heildina er litið. Komi í ljós að um slíka ívilnun sé að ræða verði skoðað hvort bændum ættu að bjóðast tryggingar fyrir leyndum göllum með sambærilegum hætti og gerist í nágrannalöndunum.”

Samþykkt samhljóða.

 

Nefndin ræddi sérstaklega um lækkun virðisaukaskatts á söluhrossum niður í 7% og lagði áherslu á að áfram yrði unnið að því máli.

 

Ræktunarnefnd - Svanhildur Hall:

Ræktunarnefnd lagði fram eftirfarandi tillögu:

“Aðalfundur F.hrb., haldinn 9. nóv. 2007 á Hótel Sögu, hvetur stjórn Félags hrossabænda til að koma af stað umræðu á réttum stöðum um fimmgangskeppni á hringvelli, hvað varðar sýningu skeiðs.

Takmarkið með slíkri umræðu er að keppnisreglum verði breytt þannig að fimmgangskeppnin verði hestvænni með því að flytja sýningu skeiðs í fimmgangi af hring yfir á beina braut.”

Samþykkt samhljóða.

 

Rætt var um í nefndinni hvort rétt væri að hækka byggingareinkunn fyrir háls eftir að hross hefur verið sýnt í reið. Nokkrar umræður urðu, en engin niðurstaða.

 

Kosningar:

 

Kjósa átti um formann til þriggja ára og gaf Kristinn Guðnason kost á sér áfram og var kjörinn með lófataki.

Tveir skoðunarmenn reikninga til tveggja ára voru kjörnir, þau Birna Hauksdóttir og Gunnar Dungal.

Þrír varamenn í stjórn til eins árs í senn:

1) Bertha G. Kvaran.

2) Pálmi Ríkharðsson.

3) Magnús Jósefsson.

 

Önnur mál:

Gunnar Ríkharðsson fjallaði um rannsóknarsjóðinn sem Sigríður lagði til að stofnaður yrði. Benti á að rétt væri að leita til fjársterkra aðila innan greinarinnar m.a. Nokkrar umræður urðu um málið.

 

Magnús Jósefsson var ósáttur við að hækka lágmörkin á 4v. hross inn á Landsmótið. Taldi nógu mikið lagt á ungu hrossin nú þegar.

 

Birna Hauksdóttir vakti máls á tollhöfn í Noregi og vildi að flokkur 7v og eldri kynbótahrossa yrði ekki með á Landsmótum. Þá taldi hún einnig að fella ætti niður kynbótasýningar á HM.

 

Hulda G. Geirsdóttir spurði hvers vegna upplýsingar um áminningar um grófa reiðmennsku í kynbótasýningum sé hvergi að finna þó þær eigi að teljast opinberar. Hún sagði það sjálfsagða kröfu hesteigenda og hrossaræktenda að geta fengið að vita ef knapi er áminntur fyrir grófa reiðmennsku á hrossi í eigu viðkomandi.

 

Guðlaugur Antonsson svaraði Birnu og var ekki sammála því að fella út flokk 7v og eldri kynbótahrossa, þar sem þar sé mikið af eftirminnilegum úrvalshrossum.

Hann vill gera miklar úrbætur varðandi kynbótasýninguna á næsta HM í Sviss.

Varðandi áminningar kynbótaknapa, þá er lítið um slíkt, aðeins tvær hérlendis á sl. sýningarári á 1203 sýndum hrossum. Sagði knapa undantekningalaust þakkláta fyrir að vera látnir vita ef þeir fara yfir strikið.

 

Fleira var ekki tekið fyrir og sleit Kristinn fundinum um kl. 18.

 

BGK/VJ/hgg