Breytingar á lögum H.E.Þ.

Á aðalfundi HEÞ sem haldinn var 27. apríl s.l. var ákveðið að breyta lögum Hrossaræktar­samtaka Eyfirðinga og Þingeyinga (H.E.Þ.) þannig að í stað þess að samtökin séu samnefnari fyrir sjálfstæð aðildarfélög þá verður eftirleiðis um beina aðild einstaklinga að ræða.

Þessi breyting var gerð eftir langan aðdraganda og vegna þess að misvirk félög voru að hafa áhrif á starfsemi H.E.Þ.

Eins og áður geta allir sem stunda hrossarækt, eða hafa áhuga á framgangi hrossaræktar á félagssvæðinu, orðið félagar í samtökunum og inntökubeiðnir skulu bera upp til samþykktar á stjórnarfundi.

H.E.Þ. er aðili að Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, Búnaðarsambandi S-Þingeyinga, Búnaðar­sambandi N-Þingeyinga og Félagi hrossabænda.

Félagið starfar samkvæmt búnaðarlögum, lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og samþykktum Bændasamtaka Íslands.

Með aðild að H.E.Þ. eru bændur því aðilar að Félagi hrossabænda og eru galdgengir þegar viðurkenningar til ræktunarverðlauna H.E.Þ. eru veittar svo dæmi séu nefnd.

Félag hrossabænda stendur fyrir ýmsu markaðsstarfi auk hrossaræktarmála, en helsta markaðsátakið sem nú er í gangi er átakið Horses of Iceland, sem H.E.Þ. tekur þátt í. Félagsmenn H.E.Þ. geta tekið þátt í átakinu í gegn um þá aðild eða með beinni aðild.

Þá er rétt að geta þess að félagsmenn H.E.Þ. fá aðgang að Worldfeng innifalið í félagsgjaldinu, en til stendur að loka aðganginum fljótlega hjá þeim sem ekki hafa borgað. Þess er þó vert að geta að félagsmenn hestamannafélaga hafa sama rétt í gegn um aðild að Landssambandi hestamannafélaga.

Greiðsluseðlar eru sendir út til þeirra sem hafa verið á félagaskrá H.E.Þ., en þar er innheimt 5.000 kr. árgjald til H.E.Þ. og 6.000 kr. árgjald til Félags hrossabænda, eða samtals 11.000 kr.

Með því að greiða gíróseðilinn staðfesta félagsmenn aðild þína að H.E.Þ., en litið verður svo á að sá sem greiðir ekki gíróseðilinn á þessu ári óski ekki eftir áframhaldandi aðild að félaginu.

Þetta hefur ekkert með sjálfstæðu hrossaræktarfélögin að gera og þau stjórna sínum málum sjálf.

Stjórnin þakkar fyrir samstarfið og býður öllum að fylgjast áfram með starfseminni hér á heimasíðu H.E.Þ.